Hérna er fréttatilkynningin eins og hún birtist í fjölmiðlum:
Fersk sýn til framtíðar
Ólafur Arason gefur kost á sér í 3.-4. sætið í forvali Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs 2. desember næstkomandi. Ólafur er 27 ára gamall stjórnmálafræðinemi. Hann hefur lengi tekið þátt í stjórnmálaumræðu hér á landi þrátt fyrir ungan aldur. Er meðal stofnenda Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og hefur tekið virkan þátt í starfi hreyfingarinnar. Hann hefur um árabil verið virkur í umræðu um þróun hugbúnaðargerðar í heiminum og hefur tekið nokkra áfanga í tölvunarfræði við Háskóla Íslands auk þess að vera með alþjóðlega gráðu í Linux stýrikerfinu.
Auk þess að bjóða sig fram sem öflugan málsvara stefnumála Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vill Ólafur beita sér fyrir því að VG taki forystu í umræðunni um þróun tækniumhverfis okkar. Þar, ekki síður en í öðrum málaflokkum, er þörf á ferskri framtíðarsýn. Of oft er umræðu um tölvu- og tæknisamfélag vísað til sérfræðinga á þeim forsendum að aðrir hafi ekki vit á henni. Á meðan er milljörðum eytt í hugbúnað á vegum einstaklinga, fyrirtækja og opinberra aðila. Ólafur vill virkja samfélagið til hugmyndaumræðu um þjóðfélag framtíðarinnar.
Meðal þess sem hann setur á oddinn er:
Að stuðla að jöfnuði í umhverfi og stuðningi við allar greinar samfélagsins. Nú er staðan sú að einungis fáar atvinnu- og samfélagsgreinar njóta stuðnings í formi styrkja og annars opinbers stuðnings.
Að mörkuð verði stefna sem nýtir frjálsan hugbúnað í þágu opinberra aðila. Með aukinni notkun slíks hugbúnaðar má spara verulega í opinberum rekstri og efla hugbúnaðargerð hérlendis samhliða.
Að fundin verði leið til að listamenn og eigendur hugverka, listar og hugbúnaðar, geti miðlað efni sínu frítt á internetinu án þess að verða fyrir kjaraskerðingu. Frjáls dreifing efnis á netinu er krafa framtíðarinnar og Ólafur vill að sátt verði um samfélagslega lausn á borð við þá sem var fundin var vegna ljósritunar á hugverkum.
Ólafur býður upp á ferska sýn á samfélag framtíðarinnar.
Heimsækið www.olafura.com
Stuðningsmenn